
FH sigraði í Meistarakeppni KSÍ
Lögðu KR í úrslitaleik með þremur mörkum gegn einu
FH tryggði sér í kvöld annan titilinn á stuttum tíma þegar liðið tryggði sér sigur í Meistarakeppni KSÍ. Í úrslitaleik sem leikinn var í Kórnum báru FH sigurorð á KR með þremur mörkum gegn einu eftir að hafa leitt í leikhléi, 2-0. FH tryggði sér einnig á dögunum sigur í A deild Lengjubikars karla.
Fyrsta mark Hafnfirðinga kom eftir um hálftíma leik og um sjö mínútum síðar bættu þeir öðru marki við. Í bæði skiptin var þar Tryggvi Guðmundsson að verki. Eftir um 15 mínútna leik skoraði Björn Daníel Sverrisson þriðja mark Hafnfirðinga en Jónas Guðni Sævarsson minnkaði muninn fyrir KR á 77. mínútu. Ekki urðu mörkin fleiri og titillinn því Hafnfirðinga.
Þetta er í þriðja skiptið sem FH sigrar í þessari keppni og hafa allir sigrarnir komið á síðustu fimm árum.
Það má segja að þessi leikur hafi rekið smiðshöggið á hið gamla góða langa undirbúningstímabil en Pepsideild karla hefst með krafti næstkomandi sunnudag með fimm leikjum. Stelpurnar taka forskot á sæluna því að Pepsideild kvenna hefst degi fyrr eða laugardaginn 9. maí með heilli umferð.