
Evrópudeild UEFA - Glæstur sigur Stjörnunnar
FH beið lægri hlut gegn Elfsborg í Svíþjóð
Stjarnan og FH voru í eldlínunni í gærkvöldi þegar þau léku fyrri leiki sína í þriðju umferð undankeppni Evrópudeildar UEFA. Stjarnan tók á móti Lech Poznan á heimavelli sínum í Garðabæ og vann frábæran sigur, 1 - 0. FH lék gegn Elfsborg í Svíþjóð og höfðu Svíarnir betur, 4 - 1.
Það var mikil stemning í Garðabænum þegar Stjarnan lagði Poznan frá Póllandi. Marklaust var í leikhléi en sigurmark Stjörnunnar kom í upphafi síðari hálfleiks og reyndist það eina mark leiksins. FH hafði í fullu tré við Elfsborg framan af leiknum og var staðan 1 - 1 þegar 20 mínútur voru eftir. Heimamenn áttu hinsvegar góðan endasprett og skoruðu 3 mörk á þessum síðustu tuttugu mínútum.
Síðari leikirnir fara fram fimmtudaginn 7. ágúst en þá taka FH á móti Elfsborg í Kaplakrika og Stjörnumenn halda til Poznan.