The Wayback Machine - https://web.archive.org/web/20160508145114/http://www.ksi.is/mot/nr/11398
Mótamál

Sigurður Ragnar ráðinn sem þjálfari ÍBV

Lætur af störfum sem fræðslustjóri KSÍ

19.10.2013

Sigurður Ragnar Eyjólfsson skrifaði undir samning við ÍBV í dag um að þjálfa karlalið félagsins næstu 3 ár. Sigurður Ragnar hefur gegnt starfi fræðslustjóra KSÍ undanfarin ár sem og gegndi hann stöðu landsliðsþjálfara kvenna. Hann mun láta af störfum hjá KSÍ á næstunni til að einbeita sér að störfum sínum sem þjálfari ÍBV. 

Ráðið verður í stöðu fræðslustjóra KSÍ á næstunni.

KSÍ óskar Sigurði Ragnari velfarnaði á nýjum vígstöðvum. 

Þessi frétt birtist á heimasíðu ÍBV í dag um ráðningu Sigurðs Ragnars:
Sigurður Ragnar Eyjólfsson skrifaði í hádeginu í dag undir samning við knattspyrnudeild ÍBV út keppnistímabilið 2016.

Sigurður Ragnar hefur frá árinu 2007 stýrt kvennalandsliði Íslands í knattspyrnu og skilað liðinu í tvígang á stórmót. Hann er fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu og fræðslustjóri KSÍ. Sigurður Ragnar lék á ferli sínum með KR, Víkingi, Þrótti og ÍA hér á landi og sem atvinnumaður með Walsall, Chester og KRC Harelbeke

Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, segir ráðningu Sigurðar Ragnars mikla lyftistöng fyrir knattspyrnuna í Eyjum. „Við erum afar ánægðir með að hafa ráðið Sigurð Ragnar. Hann hefur skýra sýn á knattspyrnuna, er vel menntaður og veit hvað þarf til að ná árangri. Hann náði frábærum árangri með kvennalandsliðið og við væntum mikils af hans störfum fyrir ÍBV,“ segir Óskar Örn.

Sigurður Ragnar segist ánægður með að vera kominn út í Eyjar. „Ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir á ferlinum með því að taka við ÍBV. Það blása ferskir vindar hér í Eyjum og mikill metnaður til að ná árangri. Hér er rík knattspyrnuhefð og öll aðstaða er til fyrirmyndar. Á næstu dögum mun ég setja mig inn í starfið, ræða við leikmenn og hefja undirbúningstímabilið,“ segir Sigurður Ragnar.




Mótamál




Aðildarfélög




Aðildarfélög


Skráning úrslita

Leiðbeiningar Úrslit leikja í öllum flokkum má skrá með SMS-skeyti eða í gegnum aðgang viðkomandi félags að ksi.is í gegnum Séraðgerðir hér að ofan