The Wayback Machine - https://web.archive.org/web/20160306040907/http://www.ksi.is/um-ksi/hin-godu-gildi-uefa/
Hin 11 góðu gildi UEFA
UEFA

Hin 11 góðu gildi UEFA

11 gildi - jafn mörg leikmönnum í knattspyrnuliði

UEFA hefur gefið út 11 góð gildi fyrir sína starfsemi.  Þessi 11 góðu gildi mynda grundavallarstefnu UEFA í mikilvægustu málefnum knattspyrnunnar.  Það er ekki tilviljun að gildin séu 11 talsins.  Í knattspyrnuliði eru 11 leikmenn og þessir 11 leikmenn mynda eina órjúfanlega heild, eitt lið.

The Eleven Values of UEFA

11

Evrópska íþróttalíkanið og sérstaða íþrótta

elevenvalues-11UEFA er evrópskt og við hjá UEFA skuldbindum okkur algjörlega hinu evrópska íþróttalíkani, sem einkennist af því að lið geta fallið niður og komist upp um deild, lífsreglunni um samstöðu, sem og opinni keppni og tækifæri fyrir alla.  Þetta er það sem íþróttir – og knattspyrna sérstaklega – snýst um.  Við verðum að verja þetta líkan vegna þess að íþróttir eru einstakar og við getum ekki leyft að íþróttir verði höndlaðar eins og hver annar viðskiptageiri.  Við munum áfram vernda sérstöðu íþrótta og erum sannfærð um að rök okkar muni hafa sigur, fyrir fótboltann.

 

10

Virðing

elevenvalues-10Virðing er lykillífsregla í knattspyrnu.  Virðing fyrir leiknum, heilindum, fjölbreytileika, reisn, heilsu leikmanna, reglum, dómaranum, mótherjum og stuðningsmönnum.  Skilaboð okkar eru skýr:  Ekkert umburðarlyndi gagnvart kynþáttahatri, ofbeldi og lyfjamisnotkun.  Knattspyrna sameinar fólk og er hafin yfir ósætti.  Húðlitur er ósýnilegur undir keppnistreyjunni og þannig mun það alltaf verða fyrir UEFA.  Kynþáttahatur og hver önnur mynd mismununar verður ekki liðin.  UEFA mun ekki líða ofbeldi, hvort sem er á keppnisvellinum eða á meðal áhorfenda.  Knattspyrnan verður að gefa fordæmi.

 

9

Landslið og félagslið

elevenvalues-9Landslið og félagslið eru lífsnauðsynlegir stuðningsþættir knattspyrnunnar.  UEFA mun áfram skuldbinda sig til að viðhalda jafnvægi milli þessara þátta og jafnvel styrkja tengslin, þar sem framþróun leiksins innan landa, í Evrópu og í alþjóðlegu tilliti er háður þessu jafnvægi.

 

8

Fjárhagsleg háttvísi og stöðugleiki móta

elevenvalues-8UEFA styður háttvísi bæði innan og utan vallar.  Fjárhagsleg háttvísi þýðir að knattspyrnufélög séu rekin fyrir opnum tjöldum og á ábyrgan hátt, til að vernda íþróttalega keppni og félögin sjálf.  Fjárhagsleg háttvísi þýðir að félög steypi sér ekki í skuldir til að halda í við keppinauta, heldur keppi innan þess fjárhagsramma sem félagið ræður við, þ.e. eyði ekki um efni fram.

 

7

Íþróttaleg heilindi og veðmál

elevenvalues-7Veðmál geta verið uppspretta tekna, en þau skapa einnig hættu fyrir knattspyrnuna, sérstaklega hvað varðar heilindi í keppni. Það er einfaldlega sanngjarnt að knattspyrnan njóti góðs af tekjum af veðmálastarfsemi.  Samt sem áður verður við að einbeita okkur að því að skuldbinda okkur algjörlega vernd íþróttalegra heilinda og eðlilegum framgangi okkar móta, til að vernda hinn sanna anda leiksins. 

 

6

Verndun æskunnar og menntunar

elevenvalues-6Sem æðsta vald í málefnum evrópskrar knattspyrnu hefur UEFA bæði íþróttalegum og siðferðilegum skyldum að gegna.  Félagaskiptum ólögráða leikmanna milli landa fylgja margar hættur.  Við skulum ekki gleyma því að leikmenn undir 18 ára aldri eru börn eða unglingar.  Við viljum vernda framtíð barna í knattspyrnu og koma í veg fyrir að þau séu rifin upp frá rótum sínum og flutt til fjarlægra landa þegar þau eru alltof ung.

 

5

Grasrótarknattspyrna og samstaða

elevenvalues-5Grunnur knattspyrnunnar er í grasrótinni og er leikin þannig alls staðar af körlum og konum, drengjum og stúlkum.  Efsta þrepið, atvinnumennskan, er bara toppurinn á ísjakanum.  UEFA mun áfram vinna að og efla samstöðu, bæði til að vernda framtíð knattspyrnunnar og til að koma til skila öllu því sem íþróttin okkar færir samfélaginu sem heild.  Einmitt vegna þess að styrkur knattspyrnunnar liggur í grasrótinni þurfum við að verja og viðhalda einkennum leiksins, í nánasta umhverfi okkar, á landsvísu og á alþjóðlega vísu, ávallt í samræmi við lög og reglur.

 

4

Góðir stjórnunarhættir og sjálfsstjórn

elevenvalues-4UEFA og aðildarsamböndin skuldbinda sig til að vinna samkvæmt góðum stjórnunarháttum.  Góðir stjórnunarhættir þýða að unnið sé fyrir opnum tjöldum, með lýðræði og gagnsæi að leiðarljósi og af ábyrgð. Í þessum anda vill UEFA vernda sjálfsstjórn íþróttasamtaka og regnhlífarsamtaka í íþróttum, þannig að knattspyrnutengdir aðilar – með knattspyrnusambönd aðildarþjóðanna í forystu – séu þeir aðilar sem hafi ákvörðunarvald í knattspyrnutengdum málum, án afskipta ríkisvalds.

 

3

Eining og forysta

elevenvalues-3UEFA er ekki einrátt og starfar ekki þannig.  Við munum áfram veita sterka forystu en starfa í anda samhljóms.  Til viðbótar við knattspyrnusambönd aðildarþjóða munum við bjóða öllum hagsmunaaðilum innan evrópskrar knattspyrnu (deildum, félögum, leikmönnum) að taka þátt í ákvörðunarferlinu, til að gera framkvæmdastjórn UEFA kleift að taka réttu ákvarðanirnar.  Að auki munum við vinna markvisst að nánari tengslum við knattspyrnuunnendur, því án þeirra væri engin atvinnuknattspyrna.

 

2

Píramída-uppbygging og heildaráhrif aðgerða

elevenvalues-2Sjálfsstjórn í íþróttum, á alþjóðlega og evrópska vísu, endurspeglast í píramída-uppbyggingu knattspyrnunnar.  FIFA, UEFA og knattspyrnusambönd þjóðanna starfa hönd í hönd, en virða jafnframt grundvallarregluna um heildaráhrif aðgerða. Þetta gerir okkur kleift að verja hagsmuni knattspyrnunnar eins og okkur frekast er unnt.

 

1

Knattspyrna fyrst og fremst

elevenvalues-1Í öllu okkar starfi verður knattspyrnuíþróttin sjálf alltaf að vera fremsti og mikilvægasti þátturinn sem taka þarf tillit til.  Knattspyrna er leikur áður en hún verður að vöru, íþrótt áður en hún verður að markaði, og skemmtun áður en hún verður að viðskiptum.

 












Mottumars