
Futsal Cup á Ásvöllum- Fyrsti Evrópusigurinn í höfn
Keflvíkingar leika sinn annan leik í dag
Keppni í G riðli undankeppni Evrópukeppninnar í Futsal (Futsal Cup) hófst í gær á Ásvöllum með tveimur leikjum. Keflvíkingar urðu fyrsta íslenska liðið til að vinna Evrópusigur í Futsal þegar þeir lögðu sænska liðið í Vimmerby, 10 - 6.
Í fyrri leik dagsins mættust franska liðið KB France og hollenska liðið FC Eindhoven en fyrirfram var búist við að þessi lið væru þau sterkustu í riðlinum. Eftir rólegan fyrri hálfleik fór allt af stað í þeim síðari. Mikil barátta, spenna og dramatík var á gólfi Ásvalla og að lokum sættust liðin á skiptan hlut, 3 - 3.
Keflvíkingar byrjuðu betur gegn sænska liðinu og leiddu í leikhlé með tveimur mörkum gegn engu. Heimamenn byrjuðu svo seinni hálfleikinn af miklum krafti og sýndu frábæra spilamennsku með Guðmund Steinarsson og Magnús Þorsteinsson í fararbroddi. Á skömmum tíma höfðu þeir skorað fjögur mörk og breytt stöðunni í 6 - 0. Svíarnir voru ráðalausir á þessum kafla en gáfust ekki upp. Þeir breyttu um varnaraðferð og náðu að minnka muninn í 6 - 3 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. En Keflvíkingar, með góða blöndu af reyndum köppum og ungum leikmönnum, voru ekkert á því að gefa eftir og lönduðu öruggum sigri, 10 - 6.
Þetta var fyrsti Evrópusigur íslensks félags í Futsal Cup og sýndu Keflvíkingar á köflum frábæra takta. Þess má geta að feðgar voru í þessu sigurliði Keflvíkinga, Zoran Daníel Ljubicic og Bojan Stefán Lubicic.
Önnur umferðin verður leikin í dag, sunnudag og fara allir leikirnir fram á Ásvöllum. Eindhoven og Vimmerby mætast kl. 15:00 og kl. 17:30 leika svo Keflvíkingar gegn KB France. Við hvetjum alla til þess að mæta á Ásvelli og fylgjast með þessari stórkskemmtilegu íþrótt og hörkuspennandi leikjum. Einungis kostar 500 krónur á leikdag og 1.000 krónur kostar passi sem gildir á alla leiki mótsins.