
Leyfisráð fundar á þriðjudag
Fyrri fundur af tveimur um veitingu þátttökuleyfa
Það líður að lokum leyfisferlisins fyrir keppnistímabilið 2011. Leyfisumsækjendur hafa fengið lokaathugasemdir við gögn og vinna nú af kappi að úrbótum þar sem við á. Leyfisráð kemur saman til ákvarðanatöku þriðjudaginn 8. mars kl. 17:00.
Á fundinum leggur leyfisstjóri fram skýrslu um leyfisumsókn hvers félags og gerir tillögu að afgreiðslu. Leyfisráð skoðar gögn félaganna eftir því sem sem ástæða þykir til og tekur loks ákvörðun um veitingu þátttökuleyfa. Kostinir á þessum fundi eru í raun tveir - að samþykkja umsókn viðkomandi félags um þátttökuleyfi, eða gefa félaginu vikufrest til að gera úrbætur á þáttum sem leyfisráð telur að þurfi til að hægt sé að veita leyfið. Leyfisráð kemur svo saman að nýju viku síðar og tekur endanlegar ákvarðanir um þátttökuleyfin.
Leyfisumsækjendur geta áfrýjað ákvörðun leyfisráðs til leyfisdóms ef svo ber undir og verður áfrýjun að berast innan viku frá ákvörðun leyfisráðs. Það hefur enn ekki gerst í sögu leyfiskerfis KSÍ að félag hafi þurft að áfrýja til leyfisdóms.